Mjólkursýrumælingar

Þessa dagana er landsliðshópurinn í mjólkursýrumælingum. Í stuttu máli sagt þá myndast mjólkursýra í vöðvum og rauðum blóðkornum þegar líkaminn brýtur niður glúkósa til að verða sér út um orku en gerir það við aðstæður þar sem niðurbrotsferlið fær ekki nægilegt súrefni. Við litla áreynslu verður "fullkomið" niðurbrot á glúkósa og engin mjólkursýra myndast enda er súrefnisþörf vöðvanna fullnægt. Vöðvarnir þurfa svo meira120px-lactic-acid-3d-balls.png súrefni þegar áreynslan eykst og þegar þeir fá ekki nægilega mikið súrefni hættir niðurbrot glúkósa að vera fullkomið og mjólkursýran myndast í meira magni en líkaminn ræður við. Það kallast mjólkursýruþröskuldur. Hjólreiðafólk vill taka langar úthaldsæfingar sem næst þessum þröskuldi án þess að fara yfir hann nema þá í stuttan tíma í einu. Þessvegna fer hjólreiðafólk og reyndar flest íþróttafólk í úthaldsgreinum í mjólkursýrupróf til að vita hvar sá þröskuldur liggur, þ.e. við hvaða púls og við hvaða álag í wöttum. Þannig er hægt að skipuleggja æfingarnar og fá meira út úr þeim. Þetta þýðir líka það að viðkomandi verður að æfa með púlsmæli og/eða wattamæli á hjólinu.Mjólkursýruprófunum lýkur í næstu viku og þá mun koma meira hingað inn um niðurstöður þeirra. Reyndar geta niðurstöðurnar sveiflast svolítið og ýmsir þættir s.s. tími dags, mataræði og æfingar dagana á undan hafa áhrif á niðurstöðurnar. Hér er örlítið fræðsluefni um svona próf.

Í hita leiksins

Það getur ýmislegt drifið á daga hjólreiðamannsins eins og má sjá í þessari stuttu video klippu sem ötulir fréttaritarar hjólabloggsins höfðu upp á í leit sinni að síðustu blaðsíðu internetsins.

 


Að pissa á hjóli (fyrir kk)


Fallegasta jólaskrautið

Markið í morgun.Hin árlega keppni hjólabúðanna um fallegustu jólaskreytinguna stendur nú sem hæst. Tíðindamaður hjólablog.is tók hjólarúnt í morgun til að kanna stöðuna. Það verður að segjast eins og er að Markið hefur tekið afgerandi forystu í keppninni. Þar á bæ voru menn á fullu í skreytingunum í morgun og maður sá hvað þeir lögðu mikla vinnu í þetta strákarnir. Allt skraut er smekklega uppsett, ekki of mikið en samt áberandi þannig að snyrtimennskan skín í gegn í orðins fyllstu merkingu. Jólin eru samt ekki komin þannig að það er spurning hvað hinar jólabúðirnar gera núna? Ekki viljum við að jólahögninn gleypi t.d. Hafsteinn fyrir lélegar skreytingar, það væri mikill missir. Ef meðfylgjandi mynd prentast vel má sjá starfsmenn Marksins skreyta hátt og lágt af mikilli alúð.

Æfingin í dag

Pétur plötusnúður í stuði.Sú hefð hefur skapast að taka eina langa æfingu í viku (3-6 tíma eftir veðri og aðstæðum) og þá á sunnudegi. Æfingin í dag hófst kl. 7:55 efst í Víðidalnum. Mættir voru Hákon Hrafn og Pétur Þór á fjallahjólum. Planið var bara að hjóla til kl 12 og halda rólegum púls (kringum 110-130). Byrjað var að fara í Grafarholtið og þaðan niður í Grafarvoginn og með ströndinni út á Gróttu (Reykjavíkurhringur). Þaðan var Ægissíðan farin og fram hjá Öskjuhlíð og fyrir Kársnesið. Þaðan beinustu leið í Hafnarfjörð og alveg út að golfvelli þeirra en þaðan er svo hægt að fara í undirgöng til að komast í Vallarhverfið. Þaðan var svo allt Krýsuvíkurmalbikið hjólað uppeftir í smá mótvindi og niðureftir að Hvaleyrarvatni í meðvindi. Í hesthúsahverfinu var hálka á götum þannig að svokölluð Flóttamannaleið var hjóluð (framhjá Golfklúbbnum Oddi og Vífilsataðavatn) gegnum Hvörfin í Kópavogi og aftur komið á upphafsstað æfingarinnar. Þaðan var svo einum Grafarholtshring bætt við rólega til að ná rúmlega 100km. Samtals tók æfingin 4:30 klst og meðalhraði var 23km/klst og meðalpúls 112.
Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Meiðsli og aðstaða íþróttamanna.

Ég lenti í þeirri miðurskemmtilegu reynslu um daginn að meiðast. Það er fátt leggst jafn illa á sálina á íþróttamönnum heldur en meiðsli og einhvern veginn er það þannig að daglegri rútínu er hreinlega kippt undan manni. Ég var búinn að vera aumur í vinstri ökklanum í nokkurn tíma og á þriðjudegi fer ég út og hjóla eftir vinnu, eins og ég geri alltaf. Síðar um kvöldið var ég síðan farinn að haltra örlítið. Daginn eftir gat ég síðan bara ekki stigið í löppina. Upp úr krafsinu kom að ég hafði tognað á sin sem heitir því háfleyga nafni Peroneus Brevis. Sin sem liggur eiginlega frá ilinni í fætinum og upp kálfann. Ég fór strax til sjúkraþjálfar eftir mjög mislukkaða ferð upp á slysó. En já, tæplega 10.000 krónum fátækari hringdi ég í sjúkraþjálfarann minn um leið og ég kom heim. Í millitíðinni hafði ég farið á netið og fundið myndir af vöðvum og sinum í fætinum og sagði honum að ég héldi að ég hefði tognað á þessari sin sem reyndist rétt. Ég var undrafljótur að ná mér og missti því lítið úr í þetta skiptið en þetta er alltaf jafn óþægileg tilfinning fyrir íþróttamenn. Það sem skipti sköpum í þessu var góð meðferð og því fór vel í þetta skiptið.

Reyndar eru þetta fyrst meiðslin sem stoppa mig á hjólinu. Eftir að hafa stundað ýmsar íþróttir þá held ég því fram að vandfundin sé sú íþrótt sem er með minni meiðslahættu. Að því gefnu að maður sé ekki alltaf að fljúga á hausinn, en ég er sem betur fer farinn að gera töluvert minna af því heldur en í upphafi.

Það er magnað hvað hugurinn reikar á þriggja tíma hjólaæfingu. Maður hefur allann heimsins tíma til hugsa um allt milli himins og jarðar. Nú eða, ef maður er í félagsskap ræða þá um daginn og veginn. Ég átti eitt svona samtal við Hafstein Ægi núna nýlega og við fórum að velta fyrir okkur aðstöðu íþróttamanna. Okkar æfingasvæði er allt Stór-Reykjavíkur svæðið eins og það leggur sig. Eins og gengur og gerist erum við oft við misjöfn skilyrði og stóran hluta ársins í niðamyrkri og því. Það þýðir ekkert að leggjast undir teppið þó það hríði eins og hann sagði og maður hreinlega verður að hjóla allt árið til að halda sér á pari við þá bestu í þessu. En það sem kom upp í huga okkar þarna á hjara veraldar í skítakulda var sú staðreynda að enginn úr okkar röðum hefur lent í neinum alvarlegum skakkaföllum. Enginn sem við mundum eftir hafði lent í útistöðum við bíl svo að slys hafði hlotist af. Þetta finnst manni hálf ótrúlegt miðað við umhverfið sem erum í. En við búum þó svo um hnútana að við erum vel búnir ljósum og allar ráðstafanir gerðar til þess að ekkert komi fyrir. Nagladekkin undir í hálkunni, ljósin á hjólið og hjálminn á hausinn og þá er þetta ekkert mál!

 

Áfram reiðhjól.
Yfir og út.
Pétur Þór Ragnarsson


Landsliðshópur hjólreiðanefndar ÍSÍ

Þetta er fyrsta færslan á þetta blog sem var sett upp sérstaklega til að kynna landsliðshóp hjólreiðanefndar ÍSÍ og keppnishjólreiðar á Íslandi. Næsta verkefni hópsins eru Smáþjóðaleikarnir 2011 í Liechtenstein (http://liegames2011.li/) og ætlunin er að halda þessu bloggi virku a.m.k. fram að þeirri keppni. Hingað inn munu því væntanlega koma inn æfingafærslur og færslur um keppnishjólreiðar almennt. Einnig er stefnan að setja hingað inn fræðsluefni og hjálp fyrir fólk sem notar hjólið sem samgöngutæki. Hjólreiðar eru ein vinsælasta íþróttgrein í Evrópu, bæði sem keppnisgrein og sem almenningsíþrótt. Sem dæmi má nefna að yfir 500þús áhorfendur röðuðu sér á 8 mílna langa tímakeppni í Alpe d'Huez sem var hluti af Tour de France árið 2005. Hjólreiðar á Íslandi hafa farið mjög vaxandi síðustu ár. Nærri 10 þúsund þátttakendur voru í "Hjólað í vinnuna" síðasta vor og fjölmennasta hjólreiðakeppni síðasta sumars taldi 347 keppendur sem flestir hjóluðu nærri 60km leið í Bláa lónið.

Landsliðshópurinn er að æfa 12-18 tíma á viku núna. Þau sem eru í landsliðshópnum eru:

Davíð Þór Sigurðsson: Götuhjól (+ fjallahjól)
Hafsteinn Ægir Geirsson: Götuhjól + TT
Pétur Þór Ragnarsson: Götuhjól + TT
Árni Már Jónsson: Götuhjól + TT

Ólafur Marteinsson: TT

Kári Brynjólfsson: fjallahjól
Valgarður Sæmundsson: fjallahjól
Hákon Hrafn Sigurðsson: fjallahjól
Hlynur Þorsteinsson: fjallahjól
Helgi Berg Friðþjófsson: fjallahjól

Bryndís Þorsteinsdóttir: fjallahjól
María Ögn Guðmundsdóttir: fjallahjól
Ása Guðný Ásgeirsdóttir: Götuhjól


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband