Meiðsli og aðstaða íþróttamanna.

Ég lenti í þeirri miðurskemmtilegu reynslu um daginn að meiðast. Það er fátt leggst jafn illa á sálina á íþróttamönnum heldur en meiðsli og einhvern veginn er það þannig að daglegri rútínu er hreinlega kippt undan manni. Ég var búinn að vera aumur í vinstri ökklanum í nokkurn tíma og á þriðjudegi fer ég út og hjóla eftir vinnu, eins og ég geri alltaf. Síðar um kvöldið var ég síðan farinn að haltra örlítið. Daginn eftir gat ég síðan bara ekki stigið í löppina. Upp úr krafsinu kom að ég hafði tognað á sin sem heitir því háfleyga nafni Peroneus Brevis. Sin sem liggur eiginlega frá ilinni í fætinum og upp kálfann. Ég fór strax til sjúkraþjálfar eftir mjög mislukkaða ferð upp á slysó. En já, tæplega 10.000 krónum fátækari hringdi ég í sjúkraþjálfarann minn um leið og ég kom heim. Í millitíðinni hafði ég farið á netið og fundið myndir af vöðvum og sinum í fætinum og sagði honum að ég héldi að ég hefði tognað á þessari sin sem reyndist rétt. Ég var undrafljótur að ná mér og missti því lítið úr í þetta skiptið en þetta er alltaf jafn óþægileg tilfinning fyrir íþróttamenn. Það sem skipti sköpum í þessu var góð meðferð og því fór vel í þetta skiptið.

Reyndar eru þetta fyrst meiðslin sem stoppa mig á hjólinu. Eftir að hafa stundað ýmsar íþróttir þá held ég því fram að vandfundin sé sú íþrótt sem er með minni meiðslahættu. Að því gefnu að maður sé ekki alltaf að fljúga á hausinn, en ég er sem betur fer farinn að gera töluvert minna af því heldur en í upphafi.

Það er magnað hvað hugurinn reikar á þriggja tíma hjólaæfingu. Maður hefur allann heimsins tíma til hugsa um allt milli himins og jarðar. Nú eða, ef maður er í félagsskap ræða þá um daginn og veginn. Ég átti eitt svona samtal við Hafstein Ægi núna nýlega og við fórum að velta fyrir okkur aðstöðu íþróttamanna. Okkar æfingasvæði er allt Stór-Reykjavíkur svæðið eins og það leggur sig. Eins og gengur og gerist erum við oft við misjöfn skilyrði og stóran hluta ársins í niðamyrkri og því. Það þýðir ekkert að leggjast undir teppið þó það hríði eins og hann sagði og maður hreinlega verður að hjóla allt árið til að halda sér á pari við þá bestu í þessu. En það sem kom upp í huga okkar þarna á hjara veraldar í skítakulda var sú staðreynda að enginn úr okkar röðum hefur lent í neinum alvarlegum skakkaföllum. Enginn sem við mundum eftir hafði lent í útistöðum við bíl svo að slys hafði hlotist af. Þetta finnst manni hálf ótrúlegt miðað við umhverfið sem erum í. En við búum þó svo um hnútana að við erum vel búnir ljósum og allar ráðstafanir gerðar til þess að ekkert komi fyrir. Nagladekkin undir í hálkunni, ljósin á hjólið og hjálminn á hausinn og þá er þetta ekkert mál!

 

Áfram reiðhjól.
Yfir og út.
Pétur Þór Ragnarsson


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Flott grein Pétur, það má læra margt af þessu! Er einmitt sjálfur að upplifa fyrsta veturinn sem ég gef hjólreiðunum ekki frí, og þá er maður að lenda í því að eiga ekki réttu hanskana, buxurnar, húfuna, skóhlífarnar, og svo eru það nagladekkin og ljósið. Maður er alveg allslaus þegar kemur að vetrarþjálfun!

En þá er bara að sanka þessu að sér hægt og rólega, á ennþá eftir að renna við hjá þér og fá góð ráð í sambandi við vetrarfatnað.

Ingvar Ómarsson (IP-tala skráð) 12.12.2010 kl. 21:44

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband