Ætlarðu að keppa í Tour de france með Lance?


Spurning sem ég hef fengið ótrúlega oft. Sérstaklega í fjölskylduboðum frá forvitnum frændum og frænkum. Þó ég gjarnan vildi að þá er það því miður víst ekki í boði. Hjólasportið sem slíkt á Íslandi er ekki stórt. En þó er þetta ein stærsta almenningsíþróttin, en sem keppnisíþrótt á hún nokkuð í land. Þó hefur verið góður vöxtur undanfarin ár og mætti nefna að í Bláalónsþrautinni sem er haldin ár hvert í byrjun júní voru skráðir 374 keppendur sem var þátttökumet. Þarna mætir fólk á öllum aldri og ólíkt af getu með það að markmiði að hjóla 60km leið úr Hafnarfirði í Bláalónið um Djúpavatnsleið á sem skemmstum tíma. Þó er það alltaf svo að ár hvert fer fjöldi fólks þessa leið sér bara til skemmtunar og til að upplifa stemmninguna í lóninu eftir mótið sem er vægast sagt frábær!

 

 TourÉg er ekkert allt of viss um að obbi þátttakenda þar viti neitt endilega neitt meira um hvernig keppnishjólreiðum erlendis sé háttað betur heldur en frændfólk mitt og það er bara eðlilegt þar sem umfjöllun um hjólreiðar í íslenskum ljósvakamiðlum er afar lítil. En það er nefninlega ekki þannig að maður taki bara upp símann, hringi til Frakklands og skrái sig í Túrinn (eins og hann er gjarnan kallaður). Í hjólreiðum er nefninlega atvinnumennska og þó maður nái svo langt að þyggja laun fyrir hjólreiðar er enn ekki víst að maður upplifi það að standa start línunni í Túrnum. Heldur er það þannig að í hjólreiðunum eru deildir. Aðeins 15 lið úr efstu deild eru með tryggt sæti í Túrnum. Önnur lið í neðri deildum þurfa að puða allt árið um kring með það eitt að markmiði að ganga í augu skipuleggjenda Túrsins í þeirri von um að fá boð þangað, en árlega fá einungis 22 lið að taka þátt.

Gott og vel. Lítið mál. Bara koma sér í eitt af toppliðunum þá! Aldeilis ekki. Því aðeins níu bestu af 25-27 hjólurum í hverju liði fá að þann heiður að fá sæti í liðinu. Þannig að þetta er ekkert sem er hlaupið að. Án þess að vera of svartsýnn fyrir hönd íslenskra hjólara þá held að ég geti fullyrt að þetta sé ekki að fara að gerast hjá neinum íslendingi alveg í bráð.

En þetta er draumur allra hjólreiðamanna. Að fá að þjást á hjóli í rúmlega 3000km á 21 degi um gjörvallt Frakkland í steikjandi hita í júlí mánuði. Af þeim 198 hjólurum sem fá ða taka þátt er aðeins lófafylli sem á séns í að vinna. Og þetta vita þeir fyrirfram.

Ég mun fara nánar út það í annarri færslu síðar en það er nefninlega líka þannig, kannski líkt og í fótbolta, að hjólreiðar er liðakeppni. Ekkert endilega sterkasti maðurinn sem vinnur heldur sterkasta liðsheildin. Menn verða að vinna saman því annars vinnst ekkert!

Jóla-hjólakveðjur,
Pétur Þór


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ágúst Ásgeirsson

Túrinn verður nokkra daga á mínum slóðum 2011 svo maður getur fylgst með af hliðarlínunni í stað þess að liggja fyrir framan sjónvarpið! Skemmtilegast væri náttúrulega að fá að vera með. Hér er sagt að þúsund keppnismenn séu um hvert sæti í atvinnumennsku og enn fleiri eru því á bak við hvert hjól í Túrnum. Ágætur pistill annars og laukrétt þetta með liðakeppnina. A.m.k. helmingur í hverju liði er þar bara til að þjóna leiðtoganum og sprettmanninum ef um 2-3 toppmenn er að ræða í liði. Þeir sækja m.a. drykkjarbrúsana og orkustangirnar í liðsbílinn og komi eitthvað fyrir hjól betri mannanna láta hinir sín eftir og bíða eftir viðgerð eða nýju hjóli o.s.frv. Ég er búinn að fylgjast lengi með Túrnum og fæ aldrei leið á honum, það er alltaf eitthvað nýtt og skemmtiegt. Ánægjulegt var hvað Frökkum gekk vel í ár og vonandi verður bara framhald á því . . .


Ágúst Ásgeirsson, 28.12.2010 kl. 19:57

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband